Svefn

Svefn er ein af undirstöðum heilbrigðs lífernis. Margar rannsóknir sýna að börn og fullorðnir fá ekki nægjanlegan svefn. Nauðsynlegt er hverjum einstaklingi að hvílast og hlaða batteríin vel. Skortur á svefni getur haft margvísleg áhrif á heilsu og komið í veg fyrir að við sinnum verkefnum dagsins svo vel sé.

Snjalltæki geta haft verulega slæm áhrif á svefn okkar og líðan. Suð og bylgjur frá tækjum sem ekki er slökkt á geta valdið truflun og óþægindum auk þess sem áreiti frá snjalltækjum getur verið mikið. Tilkynningar um ný skilaboð valda ekki bara hljóðtruflunum heldur vekja þau upp hugrenningar um hvaða skilaboð þetta skyldu vera. Hvaða app var þetta? Hver var að senda? Verð ég að skoða? Þarf ég að svara? Stöðugar truflanir geta því komið í veg fyrir nægilega langan og góðan svefn. Ekki er síður mikilvægt að ná góðum og djúpum svefni.

Útivistartími er bundinn í lög. Gott getur verið fyrirfjölskyldur að ákveða skjáútivistartíma, t.d. klukkutíma eftir að lögbundnum útivistartíma lýkur. Skjáútivistartími myndi þýða að engin skjánotkun ætti sér stað eftir þann tíma. Einnig getur gagnast vel að ákvarða skjáútivistartíma í foreldrasáttmálum bekkjarárganga.

Til að stuðla að góðum svefni er hægt að tileinka sér nokkrar einfaldar venjur:

  • Hætta allri notkun snjalltækja klukkutíma fyrir svefn
  • Slökkva á tækjum á nóttunni eða setja á flugstillingu
  • Sofa án snjalltækis við hliðina á sér
  • Byrja fyrsta klukkutíma hvers dags án snjalltækis

Svefnþörf er einstaklingsbundin en þó er hægt að fullyrða að börn og unglingar þurfa mikinn svefn.

Ráðlagðan svefntíma eftir aldri má finna hér.