Andleg heilsa

Foreldrar ættu að huga að andlegri heilsu barna með því að ræða reglulega við þau um þeirra líðan. Gæta þess vandlega að hlusta vel á börnin, leyfa þeim að tjá sig án truflunar og hjálpa þeim að leysa úr þeim vandamálum sem upp koma. Umfram allt ætti að sýna börnum ást og hlýju.

Samskipti á netinu og í tölvuleikjum geta haft mikil áhrif á börn. Einnig getur áreiti frá samfélagsmiðlum verið mikið. Algengt er orðið að börn og fullorðnir upplifi miklar kröfur til sín, svo miklar að þau eigi erfitt með að standa undir þeim. Kvíði hefur t.d. aukist mikið á meðal unglinga.

Æskilegt er að foreldrar fylgist vel með við hverja börnin eiga samskipti á netinu. Góð regla er að gefa ekki upp um sig viðkvæmar persónuupplýsingar jafnvel  þótt traust sé farið að myndast við þann sem átt er samskipti við. Einnig ætti að ræða við börnin um að ástunda jákvæð samskipti og efla sjálfsmyndir barna og unglinga.

Margir upplifa kröfur um að svara strax og setja „LIKE“ við færslur og innlegg. Unglingar telja oft móðgandi að skoða skilaboð án þess að brugðist sé við. Þetta getur t.d. valdið því að erfitt sé að leggja tæki frá sér og komið í veg fyrir eðlilegan svefn. Kvíði, óöryggi og önnur andleg vandamál geta þá gert vart við sig.

Mikilvægt er að börn, unglingar og fullorðnir geri sér grein fyrir að enginn hefur rétt til að setja hvaða kröfur sem er á aðra. Hver einstaklingur ræður sér sjálfur. Það má skoða skilaboð og svara ekki, án þess að sérstök meining liggi þar að baki. Fjöldi „LIKE-a“ ákvarða ekki hvers konar einstaklingar við erum í raun. Samfélagsmiðlar ættu ekki að móta okkur sem manneskjur. Við þurfum sjálf að efla okkar eigin sjálfmynd og ákveða hverskonar manneskjur við viljum vera.