Samvera

Foreldrar eru mikilvægasta fyrirmynd barna. Börnin læra það sem fyrir þeim er haft. Þau taka eftir því sem fullorðnir segja, hvernig þeir tala, um hverja, við hverja, hvenær. Þau átta sig strax þegar þau fá enga athygli. Börn eru mjög vel meðvituð um hversu mikill skjátími fullorðinna er og hvernig honum er varið.

Í annríki nútímans gleymast oft samverustundir fjölskyldu.Notalega samvera styrkir fjölskyldubönd og ýtir undir jákvæð samskipti. Það er börnum mjög mikilvægt að verja tíma með foreldrum sínum þar sem áreiti úr umhverfinu er haldið í lágmarki. Foreldrar ættu því að gefa sér tíma með börnunum þar sem athyglin beinist óskipt að þeim.

Auk samveru með börnunum geta foreldra sýnt áhuga sinn og stutt við börnin á margvíslegan hátt. Þátttaka í foreldrastarfi ætti að vera sjálfsagður hlutur. Þrátt fyrir að ekki hafi allir tök á að sitja í stjórnum foreldrafélaga, sinna bekkjarfulltrúarstarfi eða halda utan um foreldrastarf í íþróttum, er mikilvægt að foreldrar séu virkir þátttakendur í því starfi sem fer fram. Það er t.d. hægt að gera með því að mæta vel þegar foreldrafundir eru boðaðir í skólanum og á viðburði og uppákomur sem skipulagðar eru í bekkjarstarfi. Þannig geta foreldrar átt góðar samverustundir með börnunum,sýnt þeim áhuga, eflt félagsfærni barnanna og verið góðar fyrirmyndir.

Foreldrar ættu að vera meðvitaðir um eigin skjátíma og skjáhegðun. Þeir ættu að setja sjálfum sér mörk og það sem flestum reynist mjög erfitt, fara eftir þeim. Af hverju ættu börn að hlýða ef foreldrar fara ekki eftir eigin reglum?

Gott getur verið fyrir alla foreldra að spyrja sig eftirfarandi spurninga:

 • Hvernig lítur mitt eigið netspor út?
 • Hver er ég á netinu og hvernig er framkoma mín og ásynd?
 • Hvaða myndum, myndböndum og upplýsingum er ég að dreifa?
 • Hvar og hvenær nota ég stafræn tæki?
 • Hvernig tala ég við og um aðra á heimilinu?
 • Hvernig tala ég við og um annað fólk? Geri ég það öðruvísi á netinu en í eigin persónu?
 • Virði ég mörk annarra?
 • Bið ég um leyfi áður en ég dreifi myndum, myndböndum eða öðrum upplýsingum um aðra á netinu?
 • Get ég sleppt því að fara í símann?
 • Lifi ég heilbrigðu líferni?
 • Hversu miklum tíma eyði ég með fjölskyldunni?